SMT-skólafærni
SMT-skólafærni (hafnfirsk útfærsla á bandarísku aðferðinni Postive Behavior Support / PBS) er innleitt í skólasamfélagið til að fyrirbyggja, draga úr og stöðva hegðunarfrávik og skapa þannig jákvætt andrúmsloft. Um er að ræða aðferð hliðstæða PMT sem grundvölluð er á sömu hugmyndafræði. Ólíkum hópum nemenda er mætt með samræmdum viðbrögðum alls starfsfólks þar sem áhersla er á að gefa jákvæðri hegðun gaum og að nálgast nemendur með jákvæðum hætti. Gera má ráð fyrir þremur til fimm árum til að innleiða SMT-skólafærni.
Hvað er SMT?
- Verkfæri notað til að styrkja jákvæða hegðun í skólum
- Upprunnið í Oregon USA
Af hverju?
- Samræma reglur í skólanum
- Kenna æskilega hegðun
- Samræma viðbrögð starfsfólks
SMT-skólafærni
Markmið SMT-skólafærni er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga, í Oregon í Bandaríkjunum, og er framkvæmd í samráði við þá. SMT-skólafærni byggir á hugmyndafræði PMT-FORELDRAFÆRNI og er framkvæmd undir merkjum þeirrar þjónustueiningar, sem verið hefur leiðandi hér á landi í notkun og útbreiðslu PMT verkfæra til uppalenda. PMT (Parent Management Training) verkfærin eru vel rannsökuð af færustu sérfræðingum, notkun þeirra stuðlar að góðri aðlögun barna og þau eru því afar mikilvæg hjálpartæki. Foreldrum býðst að tileinka sér PMT- foreldrafærni jafnframt því sem skólasamfélagið á möguleika á innleiðingu SMT-skólafærni.
SMT-aðferðin
Rannsóknir hafa leitt í ljós að í hverjum skóla má gera ráð fyrir þrenns konar nemendum. „Venjulegum“ nemendum (85 til 90%), nemendum sem sýna fyrstu merki andfélagslegrar hegðunar og eiga á hættu að þróa með sér andfélagslegt hegðunarmynstur (7 til 10%) og nemendum sem þegar sýna töluverða andfélagslega hegðun og eru í mikilli áhættu vegna enn frekari vandamála í framtíðinni (3 til 5%). Gert er ráð fyrir því að brugðist sé við þessum þremur nemendahópum á mismunandi hátt og er áætlað að tvö til fjögur ár taki að innleiða þessi vinnubrögð í skólasamfélagið.