Fréttir af Reynilandi

 

15. september 2017

Nú er starfið á Reynilandi að komast aftur í fastar skorður eftir sumarfrí. Eva og Hafdís eru hættar á deildinni, en í þeirra stað komu Guðrún Björk og Guðrún Ólafs til starfa. Fljótlega eftir sumarfrí fluttust 3 drengir af deildinni yfir á Kvistaland og eftir það byrjuðu 3 ný börn hjá okkur, öll fædd árið 2016, svo óheppilega vildi til að öll veiktust þau á fyrstu dögum í aðlögun, þannig að því ferli seinkaði hjá okkur, en nú hafa öll börnin aðlagast nokkuð vel á deildina. Í þessari viku byrjuðum við hópastarf. Í innri stofunni okkar léku börnin með bolta og fleira dót, þau æfðu talningu, liti ofl. Í fremri stofunni unnum við með þurrkuð laufblöð, límdum þau á pappír og settum í plast. Í þessari viku notuðum við ekki ganginn þar sem enn eru börn sofandi úti í vagni á þessum tíma. Á miðvikudaginn fóru Gugga og Guðrún Ólafs með börnin sem fædd eru 2015 upp í íþróttahús þar sem við lékum og æfðum með börnunum á Kvistalandi, þessi ferð gekk mjög vel. Íþróttahúsferðir verða annan hvern miðvikudag og annan hvern miðvikudag verður Kristín Halla hjá okkur með tónlistarstundir. Erna Sigurlilja og Ingibjörg Rós verða hjá okkur næstu fimmtudaga kl 9:20-10:40 í leikskólavali.

 

 

7. júlí

Þá er komið að síðasta degi fyrir sumarfrí. Við höfum verið mikið á ferðinni undanfarið. Fórum einn daginn í göngutúr upp á skólavöll, fórum einn daginn á hoppudýnuna og höfum farið nokkrar ferðir í garðinn í Birkilund. Í gær buðu Gugga og Eva Berglind okkur í garðinn sinn, þangað komu allar deildir leikskólans, léku saman, skoðuðu naggrísi og fengu ís. Í dag komu Kvistaland og Könglaland í garðinn í Reyniland og léku saman og þar voru grillaðar pylsur í hádeginu. Leikskólastarfsfólk mætir á starfsdag í leikskólanum 14. ágúst og á sameiginlegan fræðsludag skólanna þann 15. ágúst. Við tökum svo á móti börnum þann 16. ágúst. 21. ágúst byrjum við að aðlaga börn frá Reyniland á Kvistaland og viku seinna byrjar aðlögun nýrra barna hjá okkur á Reyniland. Við óskum ykkur ánægjulegs sumarfrís og njótið þess sem best. Hlökkum til að sjá ykkur í ágúst.

 

16. júní

Um síðustu mánaðarmót hættum við formlegu hópastarfi, en leggjum nú meiri áherslu á útivist og gönguferðir. Þann 29. maí héldum við kveðju/ísveislu þar sem börn og starfsfólk Birkilundar kom saman í garðinum í Reynilandi, við gæddum okkur á íspinnum og lékum saman. Reykjarhólsdagurinn var haldinn í gær 15. júní. Eldri deildirnar gengu á Reykjarhólinn en við á Reynilandi létum nægja að ganga (þau yngstu voru í kerrum)  upp að skóla og leika okkur á vellinum þar. Borðuðum samlokur og drukkum heitt kakó á stéttinni við skólann og lékum okkur svo á lóðinni í kringum skólann. Kvistaland heimsótti okkur í garðinn í vikunni og í dag fórum við í heimsókn í garðinn í Birkilundi.

 

24.maí.

Í gær fór leikskólinn í heimsókn í Skörðugil með börn fædd 2012, 2013 og 2014. Viktor og Hafdís fóru í ferðina frá Reynilandi. Ferðin gekk í alla staði vel og allir skemmtu sér vel. Við sem eftir urðum heima í leikskólanum lékum okkur úti í garði í blíðunni, en hitinn fór upp í 17°í gær. Enn ber á augnsýkingu á börnum á deildinni og biðjum við ykkur að fylgjast vel með og gera viðeigandi ráðstafanir ef augnsýking kemur upp. Í næstu viku er kveðjuveisla á mánudaginn, en þá ætla krakkarnir af Könglalandi og Kvistalandi að koma í heimsókn í garðinn til okkar og allir fá ís. Á þriðjudaginn er Reykjarhólsdagur ef vel viðrar og þá stefnum við á Reynilandi að því að fara upp á hoppudýnu með nesti. Við minnum á að leikskólinn er lokaður á morgun Uppstigningadag.

 

17. maí

Það er búin að vera góð mæting hjá okkur þessa viku, allir hressir og kátir, en dálítið kvef einkennir hópinn, mikið um snýtingar. Veðrið lék við okkur í gær og fyrradag og við vorum mikið úti bæði fyrir og eftir hádegi. Í gær fengum við skemmtilega heimsókn í garðinn til okkar þegar Kristín Halla og Ronja komu með 3 hvolpa sem heita Tríóla, Víóla og Nóta. Það var mikið stuð að hlaupa um með hvolpunum, knúsa þá og leika við þá. (myndir í myndasafni) Hitinn fór upp í 17°í gærmorgun. Við höfum verið dugleg að skreppa í heimsóknir garðinn í Birkilund, sumir gangandi og aðrir í kerrum. Það hefur gengið mjög vel og er gaman að hitta eldri krakkana. (myndir í myndasafni) Á morgun er okkur boðið að koma og horfa á leikskýningu hjá skólahóp í Birkilundi, við stefnum að því að fara þangað. Nú er leikskólavalið hætt og unglingarnir farnir að sinna öðru. Við þökkum öllum þeim sem hafa verið hjá okkur í vetur fyrir samveruna.

 

5. maí.

Á Reynilandi eru allir kátir í veðurblíðunni. Þó hafa aðeins verið veikindi á börnum undanfarna daga, en við vitum að allir eru að hressast og vonandi verður full mæting hjá okkur á næstu dögum. Við vorum lítið í hópastarfi þessa vikuna, bæði vegna þess að það vantaði börn og starfsfólk. En hins vegar vorum við mjög mikið úti. Á miðvikudaginn var farið í göngutúr í garðinn í Birkilundi og í gær höfðum við síðdegisdrykkinn úti í garði, það gekk mjög vel og var gaman. Vonum að veðrið leiki við okkur áfram :)

 

 

26. apríl

Gleðilegt sumar :) Starfið á Reynilandi gengur nokkurn veginn sinn vanagang. Þær breytingar eru þó á þriðjudögum að Kristín Halla er komin í sumarfrí með tónlistarstundirnar og við fórum í síðasta íþróttahús tíma þessa vors í síðustu viku, en þá fórum við gangandi með öll börnin af deildinni í íþróttahúsið, sumir fengu reyndar að sitja í kerru á leiðinni. Allir skemmtu sér vel í íþróttahúsinu (myndir í myndasafni). Við höldum áfram hópastarfi eitthvað fram á vorið. Í þessari viku eru börnin í könnunarleik með Evu, föndra/líma með Guggu og í leik frammi á gangi með Hafdísi.  Á mánudaginn sl kom hún Sigrún Benediktsdóttir í heimsókn til okkar eftir hádegi með tveggja vikna gamla hænuunga, það var skemmtileg heimsókn, krakkarnir fengu að skoða og klappa ungunum. (myndir í myndasafni) Á þriðjudaginn kom Kvistaland í heimsókn í garðinn og lék með okkur þar. Við stefnum að því að vera dugleg í heimsóknum á milli deilda í vor og sumar. Með batnandi veðri væri ágætt að börnin kæmu með skó með sér í leikskólann, það er léttara að ganga á skóm heldur en stígvelum þegar við förum að fara í göngutúra út fyrir garðinn. Við byðjum ykkur að vera vakandi gagnvart augnsýkingu sem aðeins hefur borið á undanfarið, ef sú staða kemur upp hjá ykkar börnum er best að leita til læknis og fá dropa í augun. Selma er nú í nokkurra daga fæðingarorlofi/sauðburðarfríi.

 

  7. apríl

Í veðurblíðunni undanfarna daga höfum við á Reynilandi verið dugleg að vera úti að leika. Við höfum farið í göngutúr í garðinn á Birkilundi síðustu tvo föstudaga, Yngstu börnin hafa setið í kerru á leiðinni, en þau eldri eru mjög dugleg að ganga. Það er gaman að hitta krakkana í Birkilundi og leika í stóra garðinum þar. Í síðustu viku kom Kvistland í heimsókn í garðinn okkar. Á þriðjudaginn var foreldrakaffi og gáfu flestir foreldrar sér tíma til að líta við hjá okkur og þyggja veitingar, þökkum við ykkur fyrir komuna. Við höfum málað og föndrað páskaföndur í hópastarfi síðustu daga og vikur, afraksturinn fór heim með börnunum í gær. Þær Katrín Von og Lilja Margrét hafa verið í leikskólavali hjá okkur síðustu fimmtudaga og eiga eftir að koma áfram til okkar. Nú líður að páskafríi, miðvikudaginn 12. apríl er leikskólinn lokaður vegna starfsmannafunda, við á Reynilandi óskum ykkur gleðilegra páska og hafið það gott í fríinu. Nýjar myndir frá Reynilandi eru í myndaalbúmi.

 

 

17. mars.

Nú er Reyniland aftur fullskipuð deild af börnum. Það hafa verið aðeins tilfæringar hjá okkur eftir áramótin og í þessari viku fylltum við deildina á ný, en það er hún Gerður Júlía. Við bjóðum hana velkomna á Reyniland.  Við höfum líka gert breytingar á hópum í hópastarfi með tilkomu nýrra og yngri barna. Nú eru í Kanínuhóp: Viktor Árni, Haraldur, Ólafur Árni og Einar Berg. Í Kisuhóp eru: Elísa Hebba, Hrafnhildur Ronja, Gerður Júlía og Birna Guðrún. Í Bangsahóp eru Einar Freyr, Hermann Ágúst og Baltasar Hörður. Í hópastarfi erum við byrjuð að föndra páskaskraut, ekki ráð nema í tíma sé tekið :) Við förum í Könnunarleikinn í innra herpberginu og á ganginum er yfirleitt leikið með dúkkudót, sparkbíla eða kubba. Við höfum farið í útivist flesta daga undanfarið, það hefur verið dálítið kalt, en eftir að snjórinn fór úr garðinum og sólin er aðeins farin að hlýja okkur á morgnana, eru börnin mjög dugleg að leika sér úti. Ásta Aliya og Sara María kláruðu sínar vikur hjá okkur í leikskólavali hjá okkur á fimmtudaginn og nýjir leikskólavalsnemar mæta til okkar í næstu viku. 

 

 

 

 

3. mars

Af okkur á Reynilandi er allt gott að frétta. Það eru nú tvö ný börn á deildinni og það þriðja byrjar um miðjan mars. Starfið gengur sinn vanagang, hópastarf, tónlist, leikur o.s.frv. Í hópastarfi höfum við verið að vatnslita og mála með þekjulitum. Það er heilmikið ferli sem felst í því að læra að mála á blað, en ekki að stinga penslinum upp í sig ;)  Við héldum upp á bolludaginn með því að borða brauðbollur í morgunmat, fiskibollur í hádeginu og rjómabollur í kaffitímanum. Á sprengidegi var hefðbundið saltkjöt og baunir í hádegismatinn. Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur að venju. Flestir voru í búningum, haldið var öskudagsball og kötturinn sleginn úr tunnunni.  Þær Ásta og Sara María eru búnar að vera hjá okkur í leikskólavali þrjá fimmtudaga og eiga eftir að koma einu sinni enn. Við höfum lítið farið út þessa vikuna vegna frostsins og hálku í garðinum, en skelltum okkur þó út í morgun þar sem sólin skein skært á okkur í garðinum og snjórinn og hálkan eru að víkja. Á myndasíðunni eru komnar inn nýjar myndir frá öskudeginum og fleiru.

 

 

 

30. janúar - 10. febrúar

Síðustu vikur hafa einkennst af einstakri veðurblíðu. Við njótum þess að vera úti og leika í sandkassanum, renna og róla. Í hópastarfi höfum við verið að vatnslita. leika í könnunarleik, með dúkkudótið og kubba. Þann 6. febrúar á degi leikskólans var foreldrum boðið í morgunmat með okkur og var mæting góð. Björg og Sunna Sif kláruðu sitt leikskólaval á Reynilandi í síðustu viku og í næstu viku munu Sara María og Ásta koma til okkar í leikskólaval. Við höfum verið að æfa okkur í að þekkja gula litinn og í næstu viku ætlum við að æfa þann rauða. Við höfum líka verið að æfa regluna "að hafa hendur og fætur hjá sér" Í næstu viku leggjum við inn regluna "Að ganga inni" Næsta vika er bókavika, stafur vikunnar er "K" og tákn vikunnar er "takk fyrir matinn"   Hann Baltasar Hörður er byrjaður hjá okkur á Reynilandi og bjóðum við hann velkominn til okkar. 

 

 

16-27. janúar.

Nú er foreldraviðtölum lokið á Reynilandi. Það var 100% mæting í viðtölin og viljum við þakka öllum fyrir spjallið. Gott foreldrasamstarf er enn af mikilvægustu þáttunum í leikskólastarfinu.  Í síðustu viku máluðu börnin víkingakórónur í hópastarfi, sem þau voru svo með á þorramatnum í þessari viku. Samkvæmt venju erum við alltaf með Könnunarleik í hópastarfi, en það fara allir hópar í Könnunarleik i hverri viku. Í þessari viku vatnslituðu börnin með Evu í hópastarfi. Á miðvikudaginn fengum við þorramat, börnin voru misdugleg að smakka, þau borðuðu mismikið, en flestir urðu saddir af steiktu brauði.  Það er búið að vera einstaklega gott veður síðustu daga og börnin hafa unað sér vel úti. Í síðustu viku kom Kvistaland í heimsókn i garðinn til okkar, það er alltaf jafn skemmtilegt að fá gesti.  Björg og Sunna Sif báðar í 8. bekk eru búnar að koma til okkar í leikskólaval tvo síðustu fimmtudaga. Hafdís er farin í fríi í rúma viku og Ragga Lára leysir hana af á þriðjudögum. Í dag kom hún Bryndís nágranni okkar færandi hendi, en hún var að taka til í dótinu sínu og gaf okkur fullt af dúkkudóti, eldhúsdóti, geisladiskum, bókum og spilum. Við þökkum henni kærlega fyrir gjafirnar, þær eru vel þegnar.  Framundan hjá okkur á Reynilandi er að nú ætlum við að fara að leggja inn reglur samkvæmt SMT og fyrsta reglan sem við kennum næstu tvær vikurnar er "Að hafa hendur og fætur hjá sér"  Einnig ætlum við að leggja inn einn lit á viku næstu vikurnar og í næstu viku ætlum við að æfa okkur á að þekkja gula litinn. Hún Birna Guðrún Júlíusdóttir byrjar hjá okkur í aðlögun í næstu viku og bjóðum við hana velkomna á Reyniland. 

 

 

 

 Vikan 9-13. janúar 2017

Nú eru allir að hressast að veikindum síðustu viku og mæting var góð hjá okkur þessa vikuna. Í hópastarfi máluðu börnin á diska hjá Hafdísi og hún bjó svo til hljóðfæri úr diskunum. Selma sá um könnunarleikinn og Gugga um leik í forstofunni. Á þriðjudaginn var Kristín Halla með tónlistarstund. Við fórum ekki út á fimmtudag og föstudag vegna mikils frosts, en miðvikudagsútivistin reyndist börnunum erfið í frosti og golu, við erum orðin svo góðu vön, viljum bara hafa hlýindi áfram :) Á fimmtudaginn kom 6. bekkur í heimsókn til okkar og lék með okkur, það var mjög skemmtilegt að fá krakkana í heimsókn.

 

 

Vikan 2.-6. janúar 2017

Við viljum byrja á því að óska öllum gleðilegs árs með þökk fyrir það gamla.                                                         Fyrsta vikan á nýju ári á Reynilandi hefur einkennst af veikindum á meðal barnanna. Það hafa verið 4-6 börn daglega hjá okkur. Vonandi mæta allir hressir og kátir í næstu viku. Brynmar Sölvi var í aðlögun á Kvistalandi í vikunni og hefur nú kvatt Reyniland, við þökkum honum fyrir samveruna og óskum honum alls hins besta. Haraldur varð 2 ára fimmtudaginn 5. jan og haldið var upp á daginn með kórónu og poppi. Í næstu viku munum við hefja aftur hópastarf, Kristín Halla kemur til okkar í tónlistarstund á þriðjudaginn og við byrjum aftur okkar daglegu rútínu.

 

 

Vikan 31. okt - 4. nóvember

Í þessari viku var hópastarf að venju. í Myndlist voru krakkarnir að mála hendur með Selmu. Eva sá um Könnunarleikinn og Hafdís var með leiki á ganginum, Gugga var á kantinum og greip m.a. tækifærið og vann jólagjöf handa foreldrum með einu og einu barni í senn. Mikael og Viktor fóru í íþróttahúsið með Hafdísi á þriðjudaginn. Á föstudaginn gróðursettum við hyasintulauka í blómapottana sem við máluðum í síðustu viku. Halldóra Árný og Sara María komu til okkar í leikskólaval á fimmtudaginn. Á þriðjudaginn fór Gugga á afar skemmtilegt námskeið sem haldið var í Háskólanum á Akureyri og bar yfirskriftina Leikur að læra. Myndir frá vikunni eru komnar í myndasafn.

Svæði

Leikskólinn Birkilundur  |  560 Varmahlíð  |  Sími 453 8215  |  netfang: birkilundur@skagafjordur.is